Góðan dag
Þessi jólavika er búin að vera indæl. Við fórum ekki út í byrjun vikunnar því það var svo mikil hálka í garðinum okkar. Í gær fór hluti af krökkunum út en hluti var inni að pakka jólapökkum inn. Og í morgun fórum við ekki út útaf jólaleikritinu.
Við erum því búin að vera með deildarlegt val nánast á hverjum degi þessa vikuna. Og inná milli höfum við verið að föndra jólaföndur, pakka gjöfum og syngja jólalög. Eins og Helga leikskólastjóri hefur sent ykkur póst um að þá er verið að setja hljóðeinangrandi plötur í loftið inná deildum. Núna eru Dvergheimar í salnum á meðan það er verið að vinna á þeirri deild og verða í salnum trúlegast út næstu viku. Þá er komið að Álfheimum að tæma deildina, en við erum ekki búin að ákveða hvort við förum í salinn eða fáum að vera inná Dvergheimum á meðan það er verið að laga okkar deild. Og þá myndu Dvergheimar halda áfram að vera í salnum. Kemur betur í ljós seinna.
Við kveiktum á Betlehem kertinu síðasta mánudag, sungum og lásum sögu um kertið. Þetta er ljúf og hátíðleg stund sem krakkarnir eru virkilega að njóta. Eins er barn vikunnar búið að fá að blómstra þessa vikuna en svo fer Vala vinadúkka í jólafrí.
Á fimmtudaginn var rautt og fjólublátt litaball. Böllin eru alltaf mikil tilhlökkunar efni og mikið fjör hjá okkur. Og við gerum alltaf heiðarlegar tilraunir til að taka myndir af þessu fjöri í misgóðum gæðum.
Í dag föstudag var síðasti dagur þýsku nemana okkar. Þær komu með ávexti fyrir okkur í ávaxtastund. Við gáfum Hönnu kort sem krakkarnir höfðu skreytt og við skrifuðum fallega kveðju til hennar. Það er skrítið að hún sé að fara því okkur finnst eins og hún Hanna hafi bara alltaf verið hjá okkur. Við þökkum henni kærlega fyrir góðar samverustundir.
Krakkarnir skemmtu sér mjög vel á jólaleikritinu sem var áðan. Við þurftum að sitja þétt því salurinn var fullur af dóti en þetta hófst allt saman með samvinnu. Þau vita núna að Grýla er ekkert svo vond 😉 hún er bara einmanna og vantar vini því Leppalúði er alltaf að horfa á Liverpool spila fótbolta í sjónvarpinu og Jólasveinarnir hanga í IKEA 😊
Í næstu viku munum við syngja fyrir hinar deildirnar í salnum, mjög líklega á þriðjudeginum. Stefnan er svo að hafa jólabíó í salnum á miðvikudeginum og þá myndu tvær yngri deildirnar horfa saman og svo 2 eldri. Og á föstudaginn fáum við heimsókn frá jólasveininum. Við munum hitta á hann úti í garðinum okkar (eins og við gerðum í fyrra) og svo fáum við gott hangiket í hádeginu. Ekta jóla 😃
Eigið yndislega helgi 😃
Með vinsemd og kveðju
María, Henný Rós, Marta, Elsa Rún og Karlotta